Nátthagi Garðplöntustöð er í Ölfusi, smellið hér fyrir staðsetningu.

Um 45 km frá Reykjavík.

Nátthagi er við veg nr. 374, og eins og sést á kortinu, er hann hringvegur, og því hægt að aka áfram frá Nátthaga í báðar áttir.

Vegurinn er einnig skemmtileg útsýnisleið, þar sem sést yfir allt Ölfusið og út eftir Reykjanesskaganum.

Saga Nátthaga

Sautjánda ágúst árið 1987 keypti Ólafur Sturla Njálsson 5,3 ha lands neðan við veg nr. 374, úr landi Gljúfurs.  Stuttu seinna stofnaði hann lögbýlið Nátthagi með skógrækt sem aðalgrein.  Landið ber örnefnið Nátthagi frá gamalli tíð, og á því var rétt Efri-Ölfusinga.   Girðingar voru lagfærðar strax sumarið 1988, en annars var landið bæði húslaust, vegalaust, og án allra þæginda eins og t.d. rafmagns, vatnsveitu, hitaveitu og síma.  Nátthagi er því sannkallað frumbýli, og svo virðist sem aldrei hafi verið búið þar áður.  Að minnsta kosti hafa ekki fundist nein merki um það, hvorki tóftabrot né annað.  

Ólafur byrjaði strax sumarið 1988 ásamt fjölskyldu sinni að gróðursetja ýmsar tegundir af barrtrjám, lauftrjám og víði til að skapa skjól.  Veturinn 1988 – 1989 varð mikil eldraun fyrir allan trjágróður á Suðurlandi með miklum snjóalögum og heiftarlegum skafrenningi og skaraveðrum, þannig að ekki fengu fyrstu plönturnar góða byrjun.  Ekkert stóðst veðurhaminn nær óskaddað nema alaskaasparklóninn Keisari!  Áfram var þó haldið með óbilandi trú og  yfirgengilegri þrjósku að gróðursetja sumarið 1989, og hefur má heita, verið gróðursett í nær allt land sem var gróið í Nátthaga.  Veturnir allt frá 1988 til og með 1994 – 1995 voru mjög skafrenningsþungir í norðaustanáttum, þannig að framför trjánna skilaði sér hægt, vegna stöðugrar slípunar af ísnálum og skara.  En eftir það hefur heldur teygst úr trjánum og skjól greinilega farið að skapast af þeim, þó að ennþá megi lítið út af bera. 

Í febrúar árið 1989 keypti Ólafur tæplega 11 ha spildu fyrir ofan veginn, einnig úr landi Gljúfurs.  Þeim megin er eingöngu stunduð skógrækt og uppgræðsla.

Nátthagi Garðplöntustöð var stofnuð árið 1990 og uppbygging hennar hefur staðið sleitulaust síðan, hægt og rólega í fyrstu, enda eigandinn í fullri vinnu sem kennari í Garðyrkjuskóla ríkisins og vel það til 1. september 1994. 

Byrjað var á að brjóta land fyrir hefðbundið víðiuppeldi í beðum með plastdúk árið 1991 og því haldið áfram árið 1992.  Smávægileg sala hefst sumarið 1993, en af fullum krafti sumarið 1994. 

Árið 1993 er reist 200 fermetra gróðurhús á steyptum sökkli.  Burðarvirkið er límtrésbogar og klæðning er tvöfaldar thermoclear plastplötur (polykarbonatplast).  Húsið hefur staðist öll veður hingað til og öll snjóalög líka.  Skjólveggir og karmasvæði voru síðan búin til út frá gróðurhúsinu næstu 2 árin.  Árið 1997 er gróðurhúsið stækkað um helming í vestur og er núna 400 fermetrar í allt.  Það lokar fyrir tíðustu og mest slítandi vindáttina úr norðaustri og skapar því töluvert skjól fyrir ræktunina ásamt skjólbeltunum í kring. 

Árið 1996 var byggður 30 fermetra söluskáli ásamt aðstöðu fyrir starfsfólk og skrifstofu, og sölusvæðið staðsett sunnan við hann.  Sýningarbeð með ýmsum tegundum er við skálann.  Sama ár var einnig byrjað á grunni fyrir 200 fermetra vinnsluhús/aðstöðuhús, en sú bygging beið síðan alveg til vetursins 2001-2002, að flutt var inn finnskt hús, og sett upp og tekið í notkun 5 mánuðum seinna.

Ræktunarsvæði stöðvarinnar þekur um einn hektara og stækkar með hverju ári.  Jarðvegur er sendinn móajarðvegur. 

Eigandinn Ólafur Sturla Njálsson var í Noregi 1975 – 1978 og menntaði sig í garðyrkju við Statens Gartnerskole Rå í Norður-Noregi (nyrsti garðyrkjuskóli í heimi!) og Statens Gartnerskole Dömmesmoen í Suður-Noregi, sem er á svæði sem Norðmenn kalla Sörlandsparadiset.  Eftir það lá leiðin í Landbúnaðarháskólann að Ási rétt sunnan við Osló árið 1979.  Þaðan útskrifaðist Ólafur sem garðyrkjukandidat árið 1983.  Frá 1. júní 1984 og til 1. september 1985 vann Ólafur í Gróðrarstöðinni Mörk, en eftir það kenndi hann við Garðyrkjuskóla ríksins í 9 ár, ásamt því að vinna að ýmsum tilraunum með trjágróður á Reykjum.

Ólafur hefur alla sína hunds og kattar tíð stundað garðyrkju og þekkir tæpast aðra vinnu.  “Snemma beygist krókur” segir máltækið.  Afdrifaríkt fyrir ungan drenginn var, er móðurafi hans, Marinó Ólafsson, stóð hann að því að klifra í reynitrjánum í garðinum að Reynimel 37, þá aðeins 5-6 ára gamall.  Afinn var ekki hrifinn af því og bað Óla litla um að fara vel með trén, þau gætu skemmst.  Drengurinn tók þetta nærri sér og hefur hugsað vel um trjágróður alla tíð síðan!  Sumarið 1970 byrjaði Ólafur að vinna við snyrtingu garða undir handleiðslu Guðmundar T. Gíslasonar skrúðgarðyrkjumeistara, þá á fimmtánda ári.  Þaðan lá leiðin til Skógræktarfélags Reykjavíkur og síðan eitt sumar á Hallormsstað.   En þar kynntist Ólafur Sigurði Blöndal fyrrverandi skógræktarstjóra, sem þá stjórnaði öllum framkvæmdum í skóginum og framleiðslustöðinni.  Það urðu síðan ábendingar Sigurðar sem leiddu til þess að Ólafur lagði í víking til Noregs og nám í garðyrkju. 

Nokkur ferðalög um framandi fjöll í útlöndum hafa orðið til þess að sitthvað hefur slæðst með Ólafi til Íslands til prófurnar.  Meðal annars úr ferð til Hokkaido, nyrstu eyju Japans í september 1996 eru komin í ræktun og sölu kjarrfura, Pinus pumila, japanselri, Alnus maximowiczii og gullklukkurunni, Weigela middendorfiana.  Ferðalag í 3 vikur með Per Nörgaard-Olesen (Pétur í Mörk) haustið 1994 um Suður- og Suðaustur-Alaska leiddi af sér innflutning á ýmsum nýjum bitastæðum kvæmum af víði, öspum, greni og skrautrunnum, sem sum hver eru komin í framleiðslu og sölu.  Fimm ferðalög um Alpafjöll Evrópu frá 1998 til 2010 og söfnun á alls konar kvæmum af evrópulerki, rauðgreni og skrautrunnum við skógarmörk hafa gefið af sér margvíslega dýrmæta reynslu.  Rauðgreni frá skógarmörkum í frönsku Ölpunum koma m.a. mjög vel út í ræktun í Nátthaga.  Evrópulerki af fræi frá skógarmörkum í Ölpunum hefur verið framleitt og selt í Nátthaga.  Dvergfura, Pinus mugo var. pumilio, sem safnað var haustið 1998 við skógarmörk, sáð 1999 og gróðursett í móðurplöntureiti, er farið að gefa af sér fræ fyrir næstu kynslóð.  Haustið 2007 skrapp Ólafur til Finnlands og heimsótti þrjár garðplöntustöðvar.  Úr því ferðalagi komu margar sérstakar og sérvaldar finnskar rósir og ávaxtatré sem þrífast og gefa af sér aldin við sömu breiddargráður og eru hér.  Ávaxtatrjáainnflutningurinn var gríðarlegur um tíma og er kominn allmyndarlegt safn af ávaxtatrjám í Nátthaga sem gróðursett hefur verið í prófunarreiti og til varðveislu.  

Ein aukabúgrein hefur slæðst inn í garðyrkjustöðina, en það er kattaræktun Ólafs.  Hann hefur ræktað síams, oríental, hvíta balíketti og hvíta síamsketti, abysssiníuketti og nú einbeitir hann sér að ræktun bengalkatta.

Ólafur Sturla Njálsson
Ólafur Sturla Njálsson