Ávaxtayrkin eru æðimörg á heimsvísu og af nógu er að taka til að prófa við okkar sumarköldu aðstæður.  Ávaxtayrkin sem prófuð eru í Nátthaga og víðar koma víða að frá svæðum þar sem þau sýna mikið þol gagnvart vetrarkuldum og ná að þroska aldin þó sumarið sé stutt.  Oftast er sumarið heitara í heimkynnum yrkjanna en hér á Íslandi.  Það er merkilegt að sjá og upplifa hvað þau geta samt hér.  Á Íslandi er veturinn ekki akkilesarhællinn, ólíkt sem gerist í öðrum löndum, þ.e.a.s. þegar skjól af öðrum gróðri, húsum og skjólveggjum er til staðar.  Sumarið er í kaldasta lagi fyrir nær öll ávaxtayrkin.  Haustið er oft langt og milt, sem bætir dálítið fyrir sumarsvalann.  Vorin eru hins vegar ákaflega skeinuhætt sumum ávaxtayrkjum sem spretta of fljótt í snemmhlýindum.  Kirsuberjayrkin eru einstaklega viðkvæm fyrir of snemmbærum vorhlýindum og taka út fyrir að þurfa að bíða eftir að sumarið komi svo loksins.  Plómuyrkin, eplayrkin og peruyrkin bíða flest fram í maí með að bruma.    

Ávaxtayrkjum er skipt í þrjá hópa eftir þroskatíma aldina:

  • Sumaryrki þroska aldin í júlí, ágúst og byrjun september.
  • Haustyrkin þroska aldin frá miðjum september fram í miðjan október.
  • Vetraryrkin þroska aldin eftir miðjan október og flest þurfa eftirþroskun við rétt hitastig til að ná fullum bragðgæðum.  

Eftirfarandi ávaxtayrki eru til í samanburðarreitum í Nátthaga.  Hvert og eitt þeirra er skoðað vor, sumar og haust, ýmis atriði skráð um hegðan þeirra og fleira í 10 ár frá gróðursetningu.  Það sem kemur ánægjulega á óvart er hversu mörg yrki standast veðráttuna vel og komast meira að segja vel í gegnum erfið köld rigningasumur eins og var sumarið 2013.  Ég er bjartsýnn að að mjög mörg yrki eigi fullt erindi í íslenska garða þar sem komið er þokkalegt skjól fyrir vindi.  Í skjóli verður hlýrra.  Ávaxtatrén eyðileggjast smám saman ef þau þurfa að þola stöðugt vindgnauð.  Orka þeirra fer þá í að halda því sem komið er, í stað þessa að vaxa, dafna og stækka.  

Það er orðið nokkuð ljóst að blómgunartíminn er viðkvæmasti tíminn hjá ávaxtatrjám hérlendis og blómgun skeður í raun í allra síðasta lagi, í júní.  Því fyrr í júní sem þau ná að blómstra því betur má búast við góðum þroska aldinanna.  En eins og flestir Íslendingar vita, er júní ákaflega stríðinn mánuður veðurfarslega og æði oft koma veðurkaflar með stífum vindi, slagrigningu og jafnvel hífandi norðanátt og kulda.  Gerist það á blómgunartíma, verður mest lítið um frjóvgun blómanna, þau skemmast auðveldlega.  Meira að segja humlur, býflugur, sveifflugur o.s.frv. sem frjóvga blómin, bíða af sér slík veður!   

Sem sagt ávaxtatrén vaxa, stækka og þrífast yfirleitt vel.  Sum fá fína haustliti í september og október.  Þau blómstra meira og meira með hækkandi aldri.  En veðrið verður að vera stillt og gott þegar þau blómstra ef frjóvgun á að lukkast vel.  Þá myndast aldin og þau ná oft góðum þroska þegar haustið er milt fram í októberlok.  

Lýsingar á eftirfarandi sortum eru teknar saman úr bókum Leifs Blomqvist, sortslýsingum frá St. Lawrence garðplöntustöðinni í New York ríki og sortslýsingum frá Gränna Plantskola í Svíþjóð.  Flest neðangreind yrki hafa vaxið vel í tilraunareitum í Nátthaga síðan 2011, og ný yrki bætast við á hverju ári síðan.    

Skrauteplatré eru einnig til, en þau eru iðulega mjög góðir frjógjafar fyrir mateplayrkin, blómstra áberandi fallega og verða að fallegum trjám.  Þau gefa sum af sér æt, lítil epli, en önnur bara súr, smá berjastærðar epli, en má iðulega nýta í sultugerð og fleira þvíumlíkt.  

EPLATRÉ: Malus domestica

YRKISNAFN:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA:

UPPRUNI:

Ananaskanel (Brunkanel) Haustyrki, miðlungsstórt rauðbrúnt epli.  Safaríkt, meyrt, dálítið ferskísúrt með sætum, krydduðum kanelilmi.  Hraust yrki.  Góður frjógjafi.  Aldin eftir 5-8 ár.  Gott borðepli og í alls konar matreiðslu.   Eitt elsta kanelyrkið.  Ræktað í Rússlandi síðan 1840.
Anisovka Haustyrki, tæplega miðlungsstórt epli.  Safaríkt, frískandi ísúr sæta með kryddaðan ilm.  Hraust yrki.  Gott borðepli eftir eftirþroskun í nokkrar vikur.  Aðallega notað í safa og sultur.   Rússneskt yrki frá byrjun 19. aldar.  Kom til Finnlands 1860.
Arbat Haustyrki, tæplega miðlungsstórt epli.  Ferskt sætísúrt, meyrt og safaríkt aldinkjöt.  Örstuttur aldinstilkur.  Borðepli og í matvinnslu.  Súluepli. Rússneskt yrki, skráð í Englandi 1978.

Astrakhan Gyllenkrok
Haustyrki, miðlungsstórt, gott borðepli, ber fljótt aldin Grænt og gult, rauðflekkótt, safaríkt. Gamalt sænskt yrki frá lokum 17. aldar.
Astrakhan Röd Sumaryrki, miðlungsstórt-stórt borðepli, safaríkt, sætsúrt, astrakhan ilmandi.  Geymslutími stuttur. Gamalt sænskt yrki frá um1780.
Astrakhan Storklar Sumaryrki, stórt, sætt, safaríkt dessertepli, ljósrautt sólarmegin, ber fljótt aldin. Sænskt yrki.  Fræplanta sem fannst í Frögrenska garðinum í Stokkhólmi.
Bergius (P.J.Bergius, syn. Röd Sävstaholm) Sumaryrki, skærrautt, dessert- og borðepli, safaríkt, þægilega sætvínsúrt, bragðast betur við þroskun í köldu loftslagi, uppskerumikið, smávaxið tré, ber aldin fljótt, góður frjógjafi, sterk mótstaða gegn sjúkdómum.  Sænskt yrki, rauð stökkbreyting úr Sävstaholm.  Þekkt síðan 1919.
Borgovskoje Sumaryrki, miðlungsstór, ljósgul epli með sætt bragð og næstum án súrs keims, uppskerumikið.  Best beint af trénu. Rússneskt yrki, þekkt í Austur-Finnlandi frá lokum 19. aldar.
Carroll
Sumaryrki, miðlungsstórt, rautt sólarmegin, bragðgott, safaríkt borðepli. Einnig gott í safa og bakstur.  Geymsluþol þrír mánuðir. Moskvas päronäpple x Melba.
Charlamovsky (Duchess of Oldenburg, Harlamovski) Haustyrki, stórt, safaríkt, ísúrt, ljósgrænt epli með roðablett.  Uppskerumikið, smávaxið tré.  Ber fljótt aldin.  Best í safa, mós, sultu og niðursuðu.  Bragðast einnig vel ferskt af trénu eftir hlý sumur.  Rauðleit blóm. Rússneskt yrki frá 16. öld.
Dzin Haustyrki, miðlungsstórt- stórt, rautt eða rauðröndótt epli, 80-100 grömm.  Sæltísúrt aldinkjöt.  Geymsluþol 4 mánuðir.  Ber aldin fljótt.  Gott borðaldin og í matvinnslu.  Súlueplatré.  Rússneskt yrki.
Eppulainen Haustyrki, miðlungsstórt – stórt, flatkringlótt epli.  Örstuttur aldinstilkur.  Safaríkt, sætt með mildri vínsýru.  Hraust yrki, sterkt gegn eplaskyrfi (eplakláða) og aldinmyglu (Monilia).  Geymsluþol 2 mánuðir.  Gott borðepli, og í  eplamós og safa.    Finnskt yrki.  Frá Kerppola herragarði, Kangsala.  Úr frækjarnasáningu af Grenman.
Esters päronäpple (Långsjöns päronäpple, Sagulins päronäpple, Korobovka Haustyrki, smátt, ljúfulega bragðgott epli með kröftugan peruilm.  Safaríkt, sætt með keim af vínsúru.  Hraust yrki.  Best að tína eplin jafnharðan og þau þroskast, því þau falla auðveldlega af trénu.  Dessertepli, borða eins og “karamellur”.   Kom til Finnlands í lok 19. aldar.  Fannst í Kyyjärvi og hjá Långsjö herrgarði.
Förlovningsäpple Sumaryrki, stórt, fallegt, flatkringlótt, ljósgult epli með sólroða.  Safaríkt, sætt með keim af vinsýru.  Ber fljótt aldin.  Borðepli, best beint af trénu.  Geymsluþol lítið.   Sænskt yrki frá lokum 19. aldar.  
Gallen Sumaryrki, miðlungsstórt, flatkringlótt, safaríkt, dálítið sætsúrt, velilmandi epli.  Ber aldin fljótt.  Best beint af trénu. Góð mótstaða gegn sjúkdómum.  Bleik blóm. Fræplanta í heimagarði í Jaatsin, Finnlandi.
Gerby Kanel Haustyrki, miðlungsstórt, flatkringlótt epli.  Sætsúrt, safaríkt með kanelkeimi.  Geymsluþol stutt.  Borðepli og matvinnsluepli.  Ber fljótt aldin.  Finnskt yrki úr víxlun í O. Syrings garðplöntustöðinni, Gerby, Vasa 1940.
Gerby Tidiga   Sumaryrki, safaríkt, ljósgrænt borðtepli með roða, gott jafnvægi milli sæts og súrs bragðs.  Geymslutími stuttur.  Uppskerumikið.  Rauðleit blóm.  Hraust yrki sem fær lítið af eplaskyrfi (eplakláða).   Yrkið úr víxlun í Syrings garðplöntustöðinni um 1940 í Gerby, Vasa, Finnlandi. 
Grenman Haustyrki, flatkringlótt frekar smá epli.  Safaríkt, þétt aldinkjöt, þægilega kryddað, sætt með mátulegri vínsýru.  Geymsluþol 5-8 vikur.  Hraust yrki og góður frjógjafi.  Borðepli, í safa, eplamós og eplalíkjör.   Finnskt yrki frá 1850.  Móðurtréð á Rantakylä herragarði, nálægt St. Mickel.
Gubbäpple Haust-vetraryrki, sem eftirþroskast í geymslu og er fyrst tilbúið til átu í nóvember-desember og þá svo meyrt að tannlausir geta borða það.  Miðlungsstórt-stórt, safaríkt, rauðleitt, þægilega sætsúrt epli.  Tréð fær fallega krónu.  Nokkuð góð mótstaða gegn eplaskyrfi (eplakláða).  Geymist vel alveg fram í mars. Gamalt sænskt yrki frá 15. öld.
Gul Kanel Haustyrki, vaxglansandi, miðlungsstórt, safaríkt, sætsúrt epli með áberandi sterkan kanelilm.  Uppskerumikið.  Tekur 5-8 ár fram að fyrstu uppskeru.  Borðepli, í bakstur, safa og mós.  Góður frjógjafi og laust við sjúkdóma. Rússneskt yrki frá um 1850.
Gustavs Bästa Vetraryrki, stórt epli, allt að 300 grömm eða meira.  Aldinkjöt meyrt og safaríkt með mildan hunangskeim, næstum án kjarnahúss.  Heldur sér vel lengi á trénu, en verður fljótt ofþroskað eftir tínslu.  Uppskerumikið og tiltölulega hraust yrki.  Dessertepli beint af trénu og gott safaepli.   Finnskt yrki, uppgötvað í Jakkula, í Laihia.
Gyllene Kitajka Sumaryrki, smátt, gullgult epli með örstuttan stilk.  Ljúflegt sætsúrt-sætt bragð, næstum eins og marmelaðikaramella.  Ber fljótt aldin.  Góður frjógjafi og sjálfsfrjótt.   Nalif belyj x Kitaika 1907, rússneskt yrki frá prófessor Mitshurin.
Hampus Sumaryrki, smátt, flatkringlótt, epli, rauðbrúnt á sólarhlið, safaríkt, meyrt aldinkjöt, þægilega sætt og mjög lítil vínsýra. Bragðast best beint af trénu.  Uppskerumikið, frekar smávaxið tré.  Ber fljótt aldin og sterkt gegn sjúkdómum. Gamalt miðevrópskt yrki frá 16. öld.
Haugmann (einnig Röd Haugmann) Haustyrkim, miðlungsstórt – stórt, flatkringlótt, gult rauðröndótt epli.  Gott, milt bragð.  Geymsluþol 2 mánuðir.  Ekki sterkt gegn eplaskyrfi (eplakláða).  Borðepli og í matvinnslu.  Röd Haugmann er rauð stökkbreyting með alrauð epli.  Norskt yrki frá um 1850.
Heta Haustyrki, stórt, alrautt epli.  Safaríkt og ferskt aldinkjöt  með eðalsætsúru og nokkuð krydduðu bragði.  Tiltölulega hraust, en bæði eplaskyrfi (eplakláði) og aldinmygla geta smitað það.   Gott borðepli.    Finnskt yrki frá 1960.  Lobo x Huvitus.
Huvitus Sumaryrki, smátt – miðlungsstórt, rautt, safaríkt, þægilega vínsætsúrt epli.  Geymslutími stuttur.  Smávaxið tré.  Góður frjógjafi.  Frekar móttækilegt fyrir eplaskyrfi (eplakláða).  Best beint af trénu og einnig gott í eplamós Gamalt finnskt yrki frá því í lok 19 aldar.
Jätte Melba Sumaryrki, stórt, safaríkt, rautt, gott epli með dálítið ísúrt bragð.  Getur fengið eplaskyrfi (eplakláða).  Dessertepli og nýtanlegt á fleiri vegu.   Finnskt yrki.  Huvitus x Melba.
Josefiner Haustyrki, miðlungsstórt epli, með þægilega safaríkt, kryddað og sætsúrt aldinkjöt.  Gott borðepli, bragðast best beint af trénu.  Geymsluþol 3-4 vikur.  Fínt matvinnsluepli.   Sænskt yrki frá byrjun 19. aldar.  Frá Näs, Säby í Östergötland.
Junost Haustyrki, miðlungsstórt, brennisteinsgult epli með meyrt, safaríkt, sætt og dálítið kryddað bragð.  Ber fljótt aldin.  Bæði gott desserepli og í alls konar matargerð.   Rússneskt yrki frá 1938.  Gul Kanel x Transparente Blanche.
Kersti Sumaryrki, tæplega miðlungsstórt rauðröndótt epli.  Bragðið mjög sætt og safaríkt, örlítið ísúrt.  Tiltölulega laust við sjúkdóma.  Alls ekki góður frjógjafi.  Er sennilega triploid.  Frábært beint af trénu, borðepli. Trúlega fræplanta af Sockermiron, frá Rantakylä herragarði nálægt St. Mickel í Finnlandi.
Konfetnoje  Sumaryrki, tæplega miðlunsstórt epli, með grófkornótt, safaríkt, þægilega sætt, ögn súrt aldinkjött. Finna má örlítið bragð og ilm af peru.  Frekar veiktvaxandi yrki.  Fær sjaldan eplaskyrfi (eplakláða).  Dæmigert dessertepli.   Rússneskt yrki.  Papirovka x Korobovka.  Sannkallað konfektepli.
Korobovka Sumaryrki, smá, gul, rauðblettótt, safarík, hunangskrydduð dessertepli með gulleitt aldinkjöt.  Einnig gott í safa og niðursuðu. Engin vandræði með sjúkdóma.   Hvítrússneskt yrki.
Kuhno Vetraryrki, mjög stórt epli.  Aldinkjöt ljósgult, þétt og safaríkt með fersku ísúru bragði.  Hraust og uppskerumikið yrki.  Frábært í eplamós, safa, bakstur og mat. Finnskt yrki frá 1950.  Uppgötvað á Vesala býli í Saarijärvi.
Lavia Sumaryrki, miðlungsstórt-stórt, fallega rautt, flatkringlótt epli, með sætsúrt, milt kryddað bragð.  Geymist vel í nokkrar vikur.  Hraust yrki.  Borðepli og í matvinnslu alls konar.   Finnskt yrki upp af fræi í garði lýðskólans Lavia í lok 19. aldar.
Lepaan Meloni Sumaryrki, tæplega miðlungsstórt, kringlótt-flatkringlótt epli, með veikan ilm, mjúkt og safaríkt, mjög sætt aldinkjöt.  Keimur af melónu.  Góður frjógjafi en er 5-7 ár að komast í aldinbært ástand.  Gott borðepli.   Þekkt í Finnlandi síðan um 1830, í Lepaa, Tavastehus.
Melba Haustyrki, miðlungsstórt epli.  Bragðið bæði sætt og ísúrt með góðan ilm.  Því miður nokkuð veikt fyrir eplaskyrfi (eplakláða).  Ber fljótt aldin.  Borðepli og í matvinnslu.  Yrkið hefur verið mikilvægt í Finnlandi í kynbótum, en verður sennilega skipt út og yrkið Sandra kemur í staðinn.   Fræplanta úr kjarna McIntosh í Ottawa, Kanada.  Kom til Finnlands 1928.
Mormors  Haustyrki, stórt, flatkringlótt, safaríkt epli, með mjög lítið vínsúrt, sætt bragð.  Ber fljótt aldin.  Hraust yrki.  Borðepli og í matvinnslu alls konar.   Finnskt yrki frá Ähtäri, þar sem um 100 ára gamalt tré fannst.  Byrjað að framleiða það upp úr 1990.
Moskvas Peruepli Haustyrki, miðlungsstórt, þægilega vínsætsúrt epli.  Þarf að fá að fullþroskast lengi á trénu til að ná fullum ilm- og bragðstyrk sem minnir á peru.  Ber fljótt aldin.  Gott borðepli og í matvinnslu alls konar.   Gamalt rússneskt yrki frá 19. öld.
Neristan Haustyrki, frekar stórt, grænt epli. Þægilegt sæt með líflegri vínsýru.  Tiltölulega hraust yrki og fær sjaldan eplaskyrfi (eplakláða), en aldinmygla kemur fyrir.  Frábært borðepli, eplamós, safa og í bakstur.  Finnskt yrki, af gömlu tré í Neristan í Karleby, uppgötvað árið 2000.
Nykanel Haustyrki, miðlungsstórt kringlótt, rautt epli.  Þétt aldinkjöt, safaríkt, þægilega vínsúrt með nægilegri sætu, ferskt bragð.  Geymsluþol í nokkrar vikur.  Gott borðepli og frábært í alls konar matvinnslu.    Rússneskt yrki frá 1965.  Koritshnoje (Kanelepli) x Wealthy.
Oranie Haustyrki, miðlungsstórt, flatkringlótt, grænt epli.  Safaríkt, sætsúrt og sérlega þægilega ilmandi.  Þarf að uppskera um leið og hvert epli er fullþroskað.  Geymsluþol þrjár vikur.  Sum árin leggst aldinmygla á eplin.  Dessertepli.   Gamalt sænskt yrki frá 18. öld.  Sennilega fræplanta úr yrkinu Kaniker.
Otona Omena Haustyrki, stórt, gult, sætt bragð, varla án súrs keims.  Geymsluþol nokkrar vikur.  Hraust yrki.  Gott borðepli fyrir þá sem vilja ekki súr epli.   Finnskt yrki frá Ilmajoki.  Uppgötvað í byrjun 20. aldar. 
Papirova  (Papirovka) Haustyrki, óvenjulegt gulgrænt epli með lögun sem minnir á papriku og oft holt að innan. Ísúrt með sterkan sérstakan ilm.  Hraust og sterkt gegn eplaskyrfi (eplakláða) og aldinmyglu (Monilia).  Ber aldin fljótt.  Sennilega triploid yrki.  Fyrst og fremst epli til alls konar matvinnslu.   Baltnesk héraðssort frá 1947, sem er mikið ræktuð í Rússlandi, frá Karelíu til Síberíu.  Ræktuð lárétt í Síberíu, undir snjólaginu.
Pekka Haustyrki, tæplega miðlungsstórt, dökkrautt til svartrautt, dálítið ísúrt og sætt epli.  Gefur rauðan eplasafa.  Smávaxið tré og hraust yrki.  Mjög gott borðepli.   Finnskt yrki, frá 1999.  Lobo x Huvitus.
Pekkala Haustyrki, miðlungsstórt, flatkringlótt, gult, mjög safaríkt,  frískandi sætsúrt epli.  Geymslu þol um 2 vikur.  Ber fljótt aldin.  Sérlega bragðgott borðepli og einnig í matvinnslu alls konar.   Rússneskt yrki a.m.k. frá 19. öld.  Komi til Saarijärvi 1911 og fjölgað fyrir sölu upp úr 1980.
Petteri Sumaryrki, miðlungsstórt, dökkrautt epli með rauðlitað aldinkjöt.  Þægilega vínsætsúrt bragð.  Geymsluþol margar vikur.  Fallegt tré.  Gott borðepli. Finnskt yrki, frá 2003.  Lobo x Huvitus.
Pirja Sumaryrki, miðlungsstór – smá, rauðröndótt, ilmandi epli.  Aldinkjöt meyrt, fínkorna, þægilega sætvínsúrt.  Best beint af trénu.  Smávaxið tré.  Ber aldin fljótt.  Sennilega eitt snemmþroskaðasta yrkið.  Því miður móttækilegt fyrir eplaskyrfi (eplakláða). Finnskt, nýlegt frá 1980.  Huvitus x Melba
President Haustyrki, miðlungsstórt – stórt, grænt epli.  Safaríkt, fínlegt hvítt aldinkjöt með þægilegt sætsúrt bragð.  Geymsluþol 6 vikur.  Súlueplayrki.  Ber fljótt aldin.  Sterk mótstaða gegn eplaskyrfi (eplakláða).  Gott borðepli og í matargerð.   Rússneskt yrki sem kom úr óstýrðri frjóvgun.  Frá 1987-95.
Råby Rubin Vetraryrki, smátt, fallegt epli með glansandi skurn.  Aldinkjöt þétt og safaríkt með nokkuð ísúrt þægilegt bragð.  Geymsluþol fram til desember.  Hraust yrki.  Gott borðepli og í matargerð.    Fræplanta sem uppgötvaðist 1980 á Råby býlinu, Västmanland, Svíþjóð.
Ranta-Aho Delikatess Haustyrki, tæplega miðlungsstórt epli með kröftugan og þægilegan ilm.  Safaríkt og sætsúrt.  Sérlega gott borðepli.  Geymsluþol nokkrar vikur.  Einnig gott í eplamós og safa.  Uppskerumikið og tiltölulega hraust yrki.    Finnskt yrki frá því um 1900, Räyrinki, Vetil.
Ranta-Aho Golden Haustyrki, miðlungsstórt, ljósgult epli.  Milt, sætt og lítil vínsýra í eðalbragðgóðu aldinkjöti.  Sérlega gott borðepli og í eplamós (tínist þá fyrir fullþroskun).  Líkist yrkinu Golden Delicious.  Tiltölulega hraust yrki.    Finnskt yrki frá því um 1900, Räyrinki, Vetil.
Rautell Haustyrki, miðlungsstórt, gult rauðdílótt epli, með frískandi vínsúrt og þægilega sætt bragð.  Fallegt tré.  Ber fljótt aldin.  Gott borðepli og til alls konar matvinnslu.   Fræplanta í Onni Liipola frá lokum 19. aldar.
Revals Päronäpple Haustyrki, miðlungsstórt, gult epli með rauðbrúnan roða.  Safaríkt, frískandi sætsúrt með perukeim.  Geymsluþol nokkrar vikur.  Hátt C-vítamín innihald.  Ber fljótt aldin.  Tiltölulega hraust yrki.  Gott borðepli og einnig nothæft í matseld. Gamalt eistneskt yrki frá 18. öld.  Í Finnlandi síðan 1860.
Rupert Sumaryrki sem minnir mikið á Transparente Blanche, en er álitið betra.  Stór, ca. 100 gramma epli, safarík og meyr.  Bragðið sætt með líflegum frískandi ísúrum keim og þægilega kryddað.  Geymsluþol nokkrar vikur.  Ber fljótt aldin og góður frjógjafi.  Þægilega gott borðepli.   Úr fræsáningu í Kanada af rússnesku fræi. Kom til Finnlands 1931. 
Röd Kanel Haustyrki, miðlungsstórt, rautt epli, safaríkt með kröftugu kanelbragði.  Góður frjógjafi.  Gott borðaldin og í alls konar matvinnslu.  Um 5-8 ára bið í fyrstu aldinin. Rússneskt yrki, þekkt í Finnlandi síðan 1896.
Rödluvan Haustyrki, miðlungsstórt – stórt, skærrautt, ilmandi epli með safaríkt og sætsúrt aldinkjöt.  Gott jafnvægi milli sætu og súrs.  Borðepli og matvinnsluepli.  Ber fljótt aldin.  Tiltölulega hraust, en eplaskyrfi hrellir sum ár.   Sænskt yrki frá Balsgård tilraunastöðinni 1994.   Lobo x Barhatnoe.
Saarijärvi rauð Haustyrki, miðlungsstórt, rautt epli.  Gott borðepli og í matvinnslu.  Skv. finnskum heimildum er yrkið veikt fyrir eplaskyrfi, en ekki hefur orðið vart við það á yrkinu í tilraunareitnum í Nátthaga.  Tréð er fallega vaxið og lofar góðu.   Hnauspl. og 2 L pott.
Salla Sumaryrki, smátt, dökkgult epli, með sætt örlítið ísúrt bragð.  Skrauteplayrki sem myndar fallegt, þéttgreinótt tré og blómstrar ríkulega og uppskerumikið.  Snjakahvít blóm.  Pínulítil dessertepli, hentar einnig í súrsun og eplamós.   Eistneskt yrki, stökkbreyting sem uppgötvaðist 1980 í grunnstofnum.
Samo Haustyrki, miðlungsstórt – stórt, gulgrænt epli.  Safaríkt aldinkjöt, þægilega frískandi sætsúrt.  Blómstrar snemma.  Dálítið veikt fyrir aldinskyrfi (eplakláða).  Fallegt og aðlaðandi borðepli.   Finnskt yrki frá 1981.  Melba x Huvitus.
Sandra Haustyrki, miðlungsstórt, rautt epli.  Aldinkjöt safaríkt og rauðröndótt með þægilegt jafnvægi af sætu og súru.  Geymsluþol nokkrar vikur.  Fær dálítið eplaskyrfi (eplakláða).  Gott borðepli.   Finnskt yrki frá 1996.  Lobo x Huvitus.
Sanna Sumaryrki, miðlungsstórt, flatkringlótt, ljóst epli.  Ísúrt bragð með sætu.  Frekar hart aldinkjöt sem meyrnar svo.  Nokkuð móttækilegt fyrir eplaskyrfi (eplakláða) og eplamyglu.  Mjög gott í pæ og annan bakstur.   Yrkið fannst í Kyyjärvi, Finnlandi um1980. Sennilega frá Rússlandi.
Särsö Haustyrki, miðlungsstórt til stórt epli.  Hart aldinkjöt í byrjun sem meyrnar svo og fær fínlegt ísúrt bragð með dálitlum sætukeim.  Möndlukeimur.  Geymsluþol nokkrar vikur.  Hraust yrki.  Frábært í eplamós og sem borðepli. Fannst villtvaxandi í skerjagarðinum við Stokkhólm 1916.
Sävstaholm Sumaryrki, miðlungsstórt, gulgrænt, rauðröndótt sólarmegin, safaríkt, ilmandi epli með hvítt, fínkorna þægilega vínsætsúrt aldinkjöt.  Dessertepli og gott í matvinnslu alls konar (þá tekið fyrir fullþroskun).  Geymslutími stuttur.  Ber aldin fljótt.  Mátulega lítið tré.   Sænskt, upprunalega móðurtréð er ennþá á lífi og hraust síðan 1835!
Snygg Sumaryrki, miðlungsstórt epli.  Meyrt, safaríkt aldinkjöt, líflega frískandi vínísúr þægilega sæta.  Veiktvaxandi yrki og hentar vel í “girðingaræktun”.  Borðepli og í matvinnslu.   Finnskt yrki af fræplöntu sem sáð var til 1880 af Matti Snygg, Hyvinge.
Silva Sumaryrki, miðlungsstórt-stórt, safaríkt epli.  Bragðið milt og sætvínsúrt.  Geymsluþol 2 vikur.  Hraust yrki, sterkt gegn eplaskyrfi (eplakláða).  Ljúffengt borðepli og gott í eplamós.  Fullþroskast á sama tíma og Transparente Blanche. Sænskt yrki frá Alnarp.  Víxlun Melba x Stenbock árið 1945.
Sockermiron (Mironovka, Mironoje) Sumaryrki, tæplega miðlungsstórt gult, rauðröndótt epli.  Sætt bragð, næstum án súrs keims.  Mjög góður frjógjafi.  Mjög gott beint af trénu, sérstaklega fyrir þau sem þola illa súrt bragð.    Gamalt rússneskt yrki.  Kom til Finnlands á 19. öld.
Sparreholm Haustyrki, stórt epli.  Aldinkjöt safaríkt og framúrskarandi sætt með bananakeim.  Geymsluþol stutt.  Hraust yrki.  Sérlega vinsælt dessertepli og borðepli.   Sænskt yrki frá um 1860, uppgötvað í garði Sparreholmshallar.
Suislepp Sumaryrki, miðlungsstórt, fallegt, gulhvítt og rauðyrjótt, yndisilmandi epli.  Bragðið sætvínsúrt og þægilega sætt með keim af hindberjailmi.  Geymsluþol 4-6 vikur.  Hraust yrki.  Mjög gott borðepli og í matvinnslu alls konar.  Ber fljótt aldin.  Sjálfsfrjótt að hluta.  Góður frjógjafi. Eistneskt yrki frá því um 1900.
Suomen Suurin Vetrayrki, fallegt stórt, gult sólroðið epli.  Frekar súrt.  Þroskast í október – nóvember.  Hraust yrki.  Ber fljótt aldin.  Fyrst og fremst í alls konar matvinnslu.   Finnskt héraðsyrki frá Kangasala.
Transparente Blanche  Sumaryrki, miðlungsstórt-stórt, gulgrænt, ilmandi, safaríkt epli, þægilega sætt með líflegu vínsúru bragði.  Best ferkst beint af trénu og í eplamós.  Góður frjógjafi.  Ber aldin fljótt.  Geymist stuttur. Mjög gamallt yrki, sennilega batlneskt, þekkt a.m.k. síðan um 1850.
Tsaarin Kilpi Haustyrki, miðlungsstórt – stórt epli.  Safaríkt, meira sætt en súrt aldinkjöt.  Geymsluþol stutt.  Hraust yrki og uppskerumikið.  Miðlungsgott borðepli, en vinsælast í eplamós.   Eistneskt yrki, sem kom til Finnlands 1885.  
Turso Vetraryrki, stórt, vínsúrt epli, sem bragðast betur eftir geymlsu í nokkrar vikur.  Hraust yrki með góða mótstöðu gegn eplaskyrfi (eplakláða).  Mjög gott í bakstur, eplamós og aðra matargerð.   Finnskt yrki frá byrjun 19. aldar, kennt við Tursola býlið í Kangsala.
Valkeala Höstäpple Haustyrki, stórt, oft um 100 grömm, meyrt, safaríkt epli.  Bragðið dálítið vínsætsúrt og þægilegt.  Geymsluþol 3-5 vikur.  Vinsælt borðepli og einnig gott í matargerð.   Finnskt yrki frá um 1860.  Fræplanta í Valkeala herragarði.
Vasa Vinteräpple Vetrarepli, miðlungsstórt – stórt, gult, grængult epli með sólroða.  Mjög mikið geymsluþol, geymist vel alveg fram í apríl-maí.  Eftir nokkurra vikna eftirþroskun eru eplin orðin bitastæð.  Uppskerumikið og hraust yrki.  Gott matvinnsluepli og eftir dágóðan geymslutíma einnig gott borðepli.   Finnskt yrki frá 1945 frá O. Syrings garðplöntustöðinni í Vasa.
Veiniöun Haustyrki, miðlungsstórt, dökkpurpurarautt epli með dökkrautt aldinkjöt.  Mjög súrt og notað í safagerð og víngerð.  Fínt í eplamós, verður gegnrautt.  Ber fljótt aldin.  Frekar hraust yrki, smávegis eplaskyrfi (eplakláði).  Blóm eru stór og dökkbleik.  Veiniöun þýðir vínepli. Eistneskt yrki frá um 1950.  Roogoja x Komsomolets.
Villnäs ananas Haustyrki, miðlungsstórt – stórt, safaríkt epli.  Sætt bragð, örlítið vínsúrt og ananaskeimur.  Hraust yrki.  Dessertepli beint af trénu.  Kallað Persikkoepli í Vasahéraðinu.  Sennileg gamalt þýsk yrki, uppgötvað á Villnäs býlinu, rétt hjá Åbo, Finnlandi.
Vitgylling (Virginskt Rosenäpple, Sommargylling) Haustyrki, miðlingsstórt, yndisilmandi epli.  Meyrt og dálítið vínsúrt aldinkjöt.  Ber fljótt aldin.  Blómstrar ríkulega og uppskerumikið.  Nokkuð móttækilegt fyrir eplaskyrfi (eplakláða).  Vinsælt borðepli og til matargerðar alls konar.  Þekkt yrki í Svíþjóð og Finnlandi síðan á 18. öld. Margnafna yrki og klónar.
Vit Nalif (Belyj Nalif, Nalifnoje Belyj, Alabasterpipping) Sumaryrki, stórt epli.  Sætt og dálítið vínsúrt.  Mjög stór hvít blóm, allt að 6 cm í þverrmál.  Bæði borðepli og í matvinnslu og frábært í gelé.   Gamalt rússneskt yrki.  Þekkt í Finnlandi síðan  1865.
Vuokko Sumaryrki, miðlungsstórt – stórt epli.  Meyrt, mjög safaríkt aldinkjöt, og þægilega frískandi ísúrt sætt bragð.  Geymsluþol gott.  Uppskerumikið.  Getur fengið eplaskyrfi (eplakláða, Venturia) og eplamyglu (Monilia).  Gott borðepli og í matvinnslu.   Finnskt yrki frá 1999.  Melba x Huvitus.

PERUTRÉ: Pyrus communis

YRKISNAFN:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA:
SÉRKENNI:
Augusti päron Sumaryrki 2 L pott. og hnauspl.
Aune Haustyrki 2L pott.
Bondpäron Sumaryrki 5 L pott.
Doktors päron Haustyrki 2 L pott
Jukka Haustyrki 2 L pott.
Moskovskaja Haustyrki  2 L pott.
Olga Haustyrki  2 L pott.
Pepi Haustyrki 2 L pott.
Skánsk sykurpera Haustyrki 2 L pott.
Suvenirs Haustyrki 2 L pott.
Tartu Haustyrki 2 L pott.
Tidigt Sommar Sumaryrki 2 L pott.
Vasa Päron (ekki til 2018) Haustyrki 2 L pott.

 

PLÓMUTRÉ: Prunus domestica

YRKISNAFN:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA: 

SÉRKENNI: 

Arthur (ekki til 2018) Haustyrki 2 L pott.
Czar Haustyrki    Hnauspl.
Eurazia Haustyrki 2 L pott.
Opal Haustyrki 2 L pott.
Siivonens gul Haustyrki  2 L pott.
Sinikka Haustyrki  2 L pott.
Smedman Haustyrki 2 L pott.
Sordavala Haustyrki  2L pott.
Tuna Haustyrki  12 cm pott.
Vilmitär Haustyrki Hnausapl. og 2 L pott.

ÞYRNIPLÓMUTRÉ: Prunus domestica var. insitia

YRKISNAFN:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA: 

 

SÉRKENNI:
Gul krikon Haustyrki 2 L pott.
Himbergs blåkrikon Haustyrki 2 L pott.
Suistamo blåkrikon Haustyrki  12 cm pott.
Silvast Krikon Haustyrki 20  L pott.
KIRSUBERJAPLÓMUTRÉ: Prunus cerasifera 

YRKISHEITI:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA: SÉRKENNI:
Kometa Haustyrki  2 L pott.
Podarok St. Peterburg Haustyrki  5 L pott.
Vetraz Haustyrki 5 L pott.
SÚRKIRSUBERJATRÉ: Prunus cerasus 

YRKISHEITI:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA: SÉRKENNI:
Arttula Sumaryrki 2 L pott.
Chokoladnaja Sumaryrki 2 L pott.
Huvimaja Sumaryrki 2 L pott.
Kalmarin Morell Sumaryrki 2 L pott.
Sikkola Sumaryrki 2 L pott.
Skyggemorell Sumaryrki 2 L pott.
SÆTKIRSUBERJATRÉ: Prunus avium 

YRKISHEITI:

ÞROSKATÍMI ALDINA OG FLEIRA: SÉRKENNI:
Leningrad Black Sumaryrki 2 L pott.
Lönneberga Sumaryrki 2 L pott.
Pietarin Makea Sumaryrki 2 L pott.
Skeena Sumaryrki 2 L pott.
Stella Sumaryrki 2 L pott.
Sunburst Sumaryrki 2 L pott.