Skógartoppur ‘Lundenes’ er með gul, rauð og hvít blóm í endastæðum krans.  Blómin á Lundenes yrkinu standa þéttar saman en hjá Belgica.  Lundenes yrkið tók ÓSN með sér heim frá Grytöy í Norður-Noregi árið 2006.  Blómin ilma vel, sérstaklega í logni og á kvöldin.  Skógartoppur blómstrar á árssprota sumarsins frá júlílokum og fram á haust.  Blómin frjóvgast og myndast rauð ber sem standa þétt saman í höfði.  Berin eru óæt.

Skógartoppur er mikil dugnaðar klifurplanta sem vindur greinum sínum utan um strengi og getur orðið margra metra hár utan á húsvegg, eða eins hár og strengirnir ná.  Best er að klippa og snyrta skógartopp í apríl.  Skógartoppur vex fram á haust og fær alltaf eitthvert haustkal, en það kemur ekki að sök, þar sem hann blómstrar á árssprota.  

Eftir gróðursetningu við vegg þarf gæta að vökvunarþörf allt fyrsta sumarið.  Skógartoppur vex best í hlýjunni utan á húsveggjum mót suðri, austri og vestri.  Hann er ekki eins duglegur á frístandandi súlum og skjólveggjum.  

Lonicera periclymenum ‘Lundenes’