Síberíubergsóley ‘Albina Plena’ er með hvít fyllt blóm.  Yrkin ‘White Swan’ og ‘White Moth’ eru nauðalík, ef ekki sama yrkið.  Öll þrífast þau vel, blómstra mikið, en hafa ekki eins kraftmikinn vöxt eins og sjálf tegundin.  

Hún klifrar auðveldlega upp frístandandi skúlptúra, skjólveggi, trjástofna, handrið, húsveggi og stækkar með hverju árinu.  Hún þarf net með stóra möskva til að festa sig í.  Bergsóleyjar vefja blaðstilknum utanum granna strengi.  

Síberíubergsóley má EKKI klippa á vorin, nema kannski smá leiðréttingar á heildarútlitinu.  Hún blómstrar nefnilega á greinarnar sem uxu í fyrra, og blómstrar því um leið og hún laufgast í maí og júní.  Ef þarf að klippa til síberíubergsóley og snyrta mikið, er best að gera það strax eftir blómgun í júlí.  Það sem eftir lifir sumars og fram á haust dugir fyrir hana til að mynda nýjar greinar með blómbrum fyrir næsta ár.

Eftir gróðursetningu þarf að gæta að vatnsþörfinni allt fyrsta sumarið, sérstaklega ef gróðursett er upp við húsvegg.

 

Clematis macropetala ‘Albina Plena’