Bergflétta með frekar smágerð blöð.  Baltica er með þeim allra sterkustu og festir sig sjálf með heftirótum á veggi af ýmsum gerðum, einnig á trjástofna.   Flutt inn af Óla Val Hanssyni garðyrkjuráðunaut frá baltnesku löndunum.

Bergflétta blómstrar að hausti og fræið er fullþroskað um vorið, sem þýðir að náttúruleg fræfjölgun á sér eingöngu stað þar sem vetur eru mildir.   Blöð bergfléttu eru venjulega stjörnulaga, en blöð á blómsprotum eru egglaga.  Hægt er að taka græðlinga af blómsprotum, koma þeim til og þá vaxa þeir eins og runni, geta ekki klifrað.  Slíka runna má sjá notaða í limgerði í Bretlandi.

Gróðursett frekar djúpt og þétt upp við vegg og vökva þarf reglulega allt fyrsta sumarið, þar sem jarðvegur er frekar þurr upp við veggi, þangað til rætur hafa vaxið vel út í jarðveginn.  

Eftir harða vetur geta blöðin verið brún og visin.  Þau falla fljótt af sjálfu sér um leið og ný blöð spretta fram, en venjulega halda bergfléttur blöðum sínum grænum í fáein ár.  

Hedera helilx ‘Baltica’