Bjarmabergsóley blómstrar allt sumarið frá júní og þangað til haustfrostin herðir. Blómin eru gullgul og mjög áberandi, standa vel út úr greina- og blaðþykkninu. Eftir blómgun vaxa fræflarnir mikið og úr verður til silfurgljáandi biðukolla, sem líkist biðukollu holtasóleyjarinnar. Er líður á sumarið eru bæði ný blóm og biðukollur hlið við hlið. Fræið spírar nokkuð auðveldlega, falli það í frjóa jörð. Bjarmabergsóley getur því sáð sér sjálf og orðið villt.
Að vori er best að klippa allar greinar sem greinilega eru visnar og hanga losaralega niður. Bjarmabergsóley blómstrar á árssprota sumarsins. Snyrtiklipping að vori hefur því engin áhrif á blómgunina.
Gott er að gróðursetja bjarmabergsóley frekar djúpt, ca. 10 cm upp á leggina, þétt upp við húsvegginn og vökva reglulega fyrsta sumarið.
Bjarmabergsóley þarf grófmöskvað net til að festa sig í og klifra upp eftir á húsvegg, trjástofni, skjólveggi eða grind. Bjarmabergsóley festir sig með því að vefja blaðstilknum utanum um granna strengi.