Kínareynir ‘Bjartur’, Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Ólafur Njálsson stakk í vasa sinn berjum af litlum runna með bleikum berjum í garði garðyrkjuskólans í Norður-Wales haustið 1989, sáði þeim strax um haustið og 5 plöntur urðu til vorið 1990. Ein af þeim er þetta tré sem fékk heitið ‘Bjartur’. Tréð er sumarið 2006 rúmlega 3 metra hátt og krónan 3 metra breið. Kínareynir getur bæði verið stór runni eða formað sem smávaxið tré með klippingu. Kínareynir kelur ekkert og hefur stundum fengið skæran rauðan haustlit. Sendinn, frjór jarðvegur á vel við hann, þolir vel hálfskugga og auðveldur í ræktun. Tréð er enn í örum vexti og ekki er endanlega séð fyrir hversu stórt það geti orðið. Í heimkynnum sínum er kínareynir smávaxið tré. Berin eru í fyrstu brúnrauð en lýsast og verða skærbleik. Þrestirnir éta þau síðast af öllum reyniberjum og þá ekki fyrr en þau hafa frosið og þiðnað. Berin eru anzi bitur!