Alaskaösp, Populus trichocarpa

Alaskaösp er óhemjuvinsælt tré, enda hraðvaxta með afbrigðum og maður fær örugglega að njóta þess sem

stórs og myndarlegs trés, ekki bara barnabörnin!  Rætur aspa eru gráðugar og fara víða, en þær skemma ekki skolplagnir

né húsgrunna eins og þeir hafa verið byggðir síðust 50 árin eða svo.   Rætur aspa komast EKKI inn í plastskolplagnirnar

nema þær hafi hreinlega laskast af einhverjum ástæðum.

Alaskaösp þrífst í margvíslegum jarðvegi, en verður stórvöxnust í frjóum og rökum jarðvegi. 

Venjulega er látið duga að tala um aspir, enda alaskaöspin lang algengust allra aspategunda hérlendis.

Aspir eru til af ýmsum kvæmum og enn fleiri mismunandi klónum og er oft þrautinni þyngri að finna góð

lýsingaorð fyrir hvern og einn klón.  Margir klónanna hafa fengið sín sérheiti og tölum við þá um yrki.

Eftirfarandi yrki eru til í Nátthaga:

Alaskaösp ‘Keisari’ er ansi þrekvaxin og mikill um sig með mjög svera árssprota og stór brum.

Blöðin eru heilrend og lögunin þeirra minnir á kjöl báts.   ‘Keisari’ hækkar oft helmingi hægar en

hraðvöxnustu aspirnar, en hefur sýnt magnað þol gagnvart slæmum skafrenningi og miklu roki. 

Einnig virðist hann veru seltuþolnari og þrífst því betur í sjávarþorpum, a.m.k. sunnanlands.

Alaskaösp ‘Súla’ er hávaxin og hraðvaxta, með ákaflega fínlegar og grannar greinar og falleg blöð. 

Hún er tilvalinn í gróin hverfi, þar sem mann langar að hafa t.d. eina myndarlega og fallega ösp

í hverjum garði.  ‘Súla’ sýnir mikla mótstöðu gagnvart asparryði.

Alaskaösp ‘Jóra’ er með kröftugustu öspunum, og þolir mikið vindálag, enda notuð meðfram vegum

sums staðar.  Hún myndar miðlungsbreiðakrónu.

Alaskaösp ‘Haukur’ er miðlungskröftugur í vexti og býr yfir miklum þokka, bæði í krónubyggingu og blöðum.

‘Haukur’ sýnir töluverða mótstöðu gagnvart asparyðinu. 

Alaskaösp ‘Linda’ er kröftugtvaxandi yrki, með breiða og þokkafulla krónu.  Blöð ‘Lindu’ eru einnig áberandi

litríkari en á öðrum öspum.

Alaskaösp ‘Ægir’ er óhemjufallegt yrki, með jafna og keilulaga krónu og þrekna beina árssprota með áberandi fallegum

og sléttum berki.  Blöð ‘Ægis’ eru frekar stutt og þríhyrnd miðað við blöð annarra aspa.  Móðurtréð ‘Ægir’ stendur í Hveragerði.

Alaskaösp ‘Brekkan’ myndar breiða, ávala, reglulega og fallega krónu.  ‘Brekkan’ laufgast allra aspayrkja síðust, og því sleppur hún

oftast við skemmdir af völdum vorhreta.  Er þetta eiginleiki sem hlýtur að gera hana sérlega nothæfan á svæðinu þar sem nær allar aspir

skemmdust í 9. apríl hretinu árið 1963 (neðri sveitir Suðurlands og Suðvesturland).

Alaskaösp ‘Pétur’ er grannvaxnara yrki en ‘Jóra’, en minnir annars mikið á hana.  ‘Pétur’ er með dekkri börk á árssprotum

heldur en ‘Jóra’ og hefur sýnt meira slitþol gagnvart skafrenningi í Nátthaga.  ‘Pétur’ er hraðvaxta og laufgast seinna heldur en ‘Jóra..

Alaskaösp ‘Sæland’ er fremur hægvaxta miðað við kröftugustu aspirnar og þarf mikinn áburð til að spretta vel.

‘Sæland’ myndar mjög stór tré með tímanum, með breiða krónu.   ‘Sæland’ greinist lítið í æsku, og hliðargreinar hafa

áberand S-lögun út frá stofni.  Blöð ‘Sælands’ eru fremur breið og hjartalaga.  Yrkið sýnir mikið þol gagnvart asparryði.

Alaskaösp ‘Pinni’ minnir töluvert á ‘Sæland’ en blöð eru mjórri og langyddari á ‘Pinna’.

Myndin er af ónafngreindri ösp í haustlitum.

 

Alaskaosp